Útgerðarfélagið Lukka ehf á Stöðvarfirði fékk í síðustu viku afhentan nýjan bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa feðgarnir Ársæll Guðnason og Guðni Ársælsson. Nýji báturinn hefur hlotið nafnið Narfi SU-68 og leysir af hólmi eldri Cleopötrubát. Skipstjóri á bátnum er Ársæll Guðnason. Báturinn er 15brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Narfi er af gerðinni Cleopatra 38 þeirri sömu og aflabátarnir Guðmundur og Hrólfur Einarssynir ÍS.
Aðalvél bátsins er af gerðinni Yanmar 6KYM-ETE 650hp tengd ZF gír. Siglingatæki eru af gerðinni Furuno frá Brimrúnu auk MaxSea skipstjórnartölvu frá Radiomiðun. Báturinn er útbúinn til línuveiða með sjálfvirkri beitningu. Vinnudekk bátsins er yfirbyggt að hluta. Beitningavél, uppstokkari og rekkar eru af gerðinni Mustad frá Sjóvélum. Línuspil er frá Beiti. Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.
Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.
Rými er fyrir 11stk 660lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur fyrir fjóra er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn, ísskáp, heitu og köldu vatni.