Trefjar ehf er framleiðandi ýmissa hluta úr plastefnum. Aðalframleiðsluvaran eru bátar úr trefjaplasti, en fyrirtækið framleiðir einnig margar aðrar vörur úr trefjaplasti t.d. fiskeldisbúnað og vörur úr akrýlplastefnum. Trefjar ehf var stofnað í Hafnarfirði árið 1977 af núverandi forstjóra fyrirtækisins Auðuni N. Óskarssyni. Fyrirtækið hóf starfsemi á framleiðslu bílahluta úr trefjaplasti með einum starfsmanni. Umsvif Trefja ehf hafa aukist jafnt og þétt frá stofnun og er fyrirtækið í dag stærst og leiðandi á sínu sviði á Íslandi. Fyrirtækið hefur í dag tvær starfstöðvar í Hafnarfirði. Árið 1996 hóf fyrirtækið starfsemi að Hjallahrauni 2 í 3.500m2 húsnæði með 15.000m2 útisvæði. Árið 2008 opnaði fyrirtækið nýja sérhannaða 3.800m2 bátaverksmiðju að Óseyrarbraut 29 með 8.000m2 útisvæði.
Árið 1994 þróuðu Trefjar nýja línu hraðfiskibáta undir nafninu Cleopatra. Cleopatra bátarnir eru í dag aðalframleiðsluvara fyrirtækisins. Í dag eru bátarnir í megindráttum framleiddir í fjórum stærðum Cleopatra Fisherman 31, Cleopatra Fisherman 33, Cleopatra Fisherman 38 og Cleopatra Fisherman 50. Cleopatra bátarnir eru hraðfiskibátar sem eru hannaðir til að standast ýtrustu kröfur atvinnusjómanna um hagkvæmni, hraða og sjóhæfni. Cleopatra Fisherman bátarnir eru sérlega rúmgóðir og sterkir bátar með mikla burðargetu. Þessir bátar hafa verið vinsælustu bátarnir meðal íslenskra sjómanna undanfarin ár og hafa eigendur þeirra komið með að landi allt að 1.600 tonna afla á ári! Bátanna er hægt að útbúa til ýmissa veiða eins og línuveiða með sjálfvirkum búnaði, netaveiða, handfæraveiða, gildruveiða, togveiða eða smá nótaveiða. Þeir eru hannaðir sem hraðfiskibátar til að standast erfitt veðurfar og sjólag á Íslandsmiðum. Cleopatra bátarnir eru góður og hagkvæmur kostur hvort tveggja fyrir einyrkja í útgerð sem og stærri útgerðir.
Trefjar ehf hafa frá árinu 1979 framleitt yfir 400 smábáta af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrstu árin voru framleiddir bátar undir tegundarheitinu Skel. Á árunum mill 1980 og 1990 voru þessir bátar Skel 26, Skel 80 og Skel 86 meðal vinsælustu báta hjá íslenskum smábátasjómönnum. Hönnun Skel bátanna var ný nálgun í smíðum á smábátum. Hönnunin byggðist á gamalreyndu íslensku bátalagi “Breiðafjarðarlaginu” sem hafði sannað ágæti sitt við erfiðar aðstæður á Íslandsmiðum lengst af tuttugustu öldinni. Skel bátarnir sameinuðu kosti eldri hönnunar og nýrra tíma í framleiðslutækni. Bátarnir voru hvoru tveggja vinsælir meðal atvinnusjómanna og þeirra sem notuðu þá til skemmtunar. Skel bátarnir eru ennþá hluti af framleiðslu Trefja.
Vörumerkið Cleopatra er vel þekkt á mörkuðum í Skandinavíu og víðar. Trefjar hafa afgreitt báta til 4 heimsálfa. Norður Evrópa er heimamarkaður Trefja ehf. Sjóhæfni ,öryggi og áreiðanleiki hefur skapað bátnum orðspor sem gerir Cleopatra að erfiðum keppinauti á öllum mörkuðum.

Sveigjanleiki er aðalsmerki hönnunar á Cleopatra bátunum. Cleopatra bátanna er hægt að fá í ýmsum útfærslum til margskonar atvinnustarfsemi á sjó. Sjóstangaveiði, farþegaflutningar og hafrannsóknir eru dæmi um verkefni sem Cleopatra bátar hafa verið afgreiddir í. Trefjar hafa einnig boðið Cleopatra bátanna í skemmtibáta útfærslum. Skemmtibáta útgáfur eru fáanlegar eftir óskum hvers og eins. Bátarnir eru því vinsælir hjá þeim sem óska eftir sérhönnuðum skemmtibát sem hefur sjóhæfni sem hæfir erfiðu sjólagi við Ísland.

Allir Cleopatra bátar eru 100% íslensk framleiðsla. Bátarnir eru byggðir eftir Norðurlandareglum um smíði báta. Trefjar hafa lagt sig fram um að vera leiðandi afl á þeim mörkuðum sem það starfar á.