Útgerðarfélagið Ólafur ehf. í Reykjavík fékk um áramótin afhentan nýjan Cleopatra 38 bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Þetta er fimmti bátur þessarar gerðar sem afhentur hefur verið frá því í fyrra. Nýi báturinn er systurskip Guðmundar og Hrólfs Einarssona ÍS og Huldu Kela ÍS sem komu til Bolungarvíkur á síðasta ári. Auk þeirra var Gísli Súrsson GK seldur til Grindavíkur.
Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Ólafur HF 200. Báturinn leysir af hólmi eldri bát með sama nafni. Eigendur útgerðarinnar eru bræðurnir Ólafur og Einar Ólafssynir ásamt Ólafi syni Einars. Skipstjóri er Ólafur Ólafsson.
Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 og er hún 650 hestöfl. Siglingatæki af gerðinni Raytheon eru frá R. Sigmundsyni. Hliðarskrúfa er af gerðinni Sleipner. Báturinn er útbúinn til línuveiða. Spilbúnaður er frá Beiti.
Báturinn, sem gerður verður út frá Hafnarfirði, er 15 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Rými er fyrir 11 fiskkör af stærðinni 660lítra í lest. Í bátnum er innangeng, upphituð stakkageymsla. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar. Borðsalur fyrir fjóra er í bátnum auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofni og frystiskápi.