Nú stuttu fyrir hátiðar var afgreiddur nýr Cleopatra bátur til Nesseby í Varangursfirði í Finnmerkurfylki í Noregi. Kaupandinn er Edgar Olsen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Vesterelvjenta. Hann mælist 13.5brúttótonn og er af gerðinni Cleopatra 35 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38. Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D9 500hp tengd ZF V-gír. Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno og JRC. Hann er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans.
Báturinn er útbúinn til netaveiða auk þess aðstunda veiðar á kóngakrabba hluta úr ári. Netabúnaður frá Rapp. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði. Rými er fyrir 12stk 380 lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.
Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp. Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í janúar.