Guðmundur Ragnar Guðmundsson útgerðarmaður frá Drangsnesi fékk fyrir nokkru afhentan nýjan Cleopatra 38 bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Þetta er sjötti bátur þessarar gerðar sem Trefjar selja hér innanlands á innan við einu ári. Báturinn er systurskip Guðmundar og Hrólfs Einarssona ÍS, Huldu Kela ÍS, Gísla Súrssonar GK og Ólafs HF.
Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Kristbjörg ST 6. Báturinn leysir af hólmi eldri Cleopötrubát. Skipstjóri á bátnum er Halldór Logi Friðgeirsson og háseti Hilmar Hermannsson.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12, 650 hestafla, og er hún tengd ZF gír. Siglingatæki eru frá Elcon ehf. Báturinn er útbúinn til línuveiða. Spilbúnaður er frá Beiti. Báturinn er einnig útbúin með hliðarskrúfu sem er tengd sjálfstýringu bátsins.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Báturinn er 15 brúttótonn að stærð og er í krókaaflamarkskerfinu. Rými er fyrir 11 fiskkör af stærðinni 660 lítra í lest. Í bátnum er innangeng, upphituð stakkageymsla. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar. Borðsalur fyrir fjóra er í bátnum auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofni, ísskápi, heitu og köldu vatni.

Þess má geta að farnir hafa verið tveir róðrar á hinni nýju Kristbjörgu ST og hafa veiðarnar gengið vel. Þannig fengust um fimm tonn af fiski í seinni róðrinum.