Núna í lok maí var afgreiddur nýr Cleopatra 26 bátur til Peterhead í Skotlandi. Kaupandi bátsins er Gavin Thain útgerðarmaður frá Peterhead. Báturinn hefur hlotið nafnið Darcie Girl PD 209. Darcie Girl er bátur af gerðinni Cleopatra 26, 8 metra langur og mælist 6 brúttótonn.
Heimahöfn bátsins er í Peterhead. Báturinn er sérútbúinn til veiða á makríl með handfærarúllum og til humar og krabbaveiða með gildrum.
Lest bátsins er hönnuð fyrir 10stk 220L fiskikör. Í fiskilest bátsins er sjálfvirkt sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.
Í lúkar er svefnpláss fyrir 2, ásamt eldunaraðstöðu með eldavél og örbylgjuofni. Aðalvél bátsins er af gerðinni Perkins/Sabre 265hp. Siglingatæki eru af gerðinni Koden og JRC.
Handfærarúllur eru frá DNG. Reiknað er með að báturinn hefji veiðar í næstu viku.