Trefjar hefur í samstarfi við Kvikna consulting fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa andveltitank fyrir báta sem hafa sjálfvirkan stjórnbúnað til að hámarka virkni þeirra. Andveltitankar eru settir um borð í skip til að minnka velting, til þæginda og aukins öryggis fyrir skipverja. Tankarnir eru fylltir vökva, oftast sjó, sem flæðir milli hólfa á milli stjórn- og bakborða, úr fasa við velting skipsins þannig að útslag hreyfingar skipsins verður minna en ella.