utflutningsverdlaun_enNú á dögunum veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Trefjum ehf Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2012 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Það var Auðun N. Óskarsson stofnandi Trefja ehf sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Í umsögn verðlaunanefndarinnar segir:
“Trefjar ehf fær verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun og smíði báta úr trefjaplasti til fiskveiða. Á tímum þegar almennur framleiðsluiðnaður hefur átt undir högg að sækja hér á landi hafa Trefjar sótt fram og leitað markaða innanlands og erlendis fyrir framleiðsluvörur sínar og sýnt lofsvert frumkvæði í markaðsfærslu og vöruþróun. Trefjar framleiða gæðavörur sem eiga greiðan aðgang inn á alþjóðlegan markað og er fyrirtækið góð fyrirmynd fyrir þann fjölda fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á íslenskri þekkingu og reynslu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.”

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.
Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.
Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Trefjar ehf fengu í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal. Verðlaunagripurinn er gerður af Tinnu Gunnarsdóttur listakonu og hönnuði en merki Útflutningsverðlaunanna er hannað af Hilmari Sigurðssyni.
Listaverkið eftir Tinnu Gunnarsdóttur heitir Akkeri og er unnið úr áli og blágrýti. Listamaðurinn lýsir verkinu þannig: „Akkerið er tákn siglinga og siglingin tákn þeirrar dirfsku og framsýni sem þarf til fyrirtækjareksturs á óveðurstímum. Akkerið hvílir á traustum blágrýtisgrunni sem er tákn stöðugleika og jarðtengingar.“

Trefjar eru ákaflega stolt yfir þessum heiðri sem fyrirtækinu er sýndur með verðlaununum og munu þau án efa efla starfsfólkið til frekari árangurs á erlendum vettvangi.